Barnavernd
Tilkynna til barnaverndar
Ef þú telur að barn sé í bráðri hættu skalt þú hringja strax í 1-1-2.
Almenningur getur tilkynnt til barnaverndar undir nafnleynd. Barnaverndarstarfsmaður þarf þó ávallt að fá nafn og símanúmer þess sem tilkynnir en heldur þeim upplýsingunum leyndum fyrir þeim sem málið snýr að. Þeir sem hafa afskipti af börnum, svo sem starfmenn leikskóla, skóla, frístunda, heilbrigðisstofnanna o.fl., er skylt að tilkynna til barnaverndar en þessir aðilar geta ekki tilkynnt undir nafnleynd.
Hvað á að tilkynna?
Tilkynna ber allt athæfi sem getur verið hættulegt andlegri eða líkamlegri heilsu og þroska barns. Það kann að vera vanræksla, vanhæfni eða framferði foreldra gagnvart barni, áreitni eða ofbeldi af hendi annarra gagnvart barni eða hegðun þess.
Einnig skal tilkynna ef grunur er um að refsiverður verknaður hafi verið framinn gegn barni eða af því.
Ferill í barnaverndarmálum
Eftir móttöku tilkynningar taka starfsmenn barnaverndarnefndar ákvörðun um hvort tilefni sé til að hefja könnun máls. Er það gert innan sjö daga frá því að tilkynning berst. Sú ákvörðun er tekin á vikulegum teymisfundum nema tilefni sé talið til þess að bregðast við án tafar. Foreldrar eru ávallt látnir vita að tilkynning hafi borist. Undantekning á þessu verklagi er þegar barn er talið í hættu í umsjá foreldra og/eða þegar það er talið þjóna hagsmunum barnsins að foreldrar viti tímabundið ekki af könnuninni.
Ef tilkynningin byggist á rökstuddum grun ber barnavernd að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barnsins sem í hlut á, tengsl þess við foreldra eða aðra, aðbúnað þess á heimili, skólagöngu, hegðun á heimili og utan þess, svo og um andlegt og líkamlegt ásigkomulag. Rétt er að taka fram að þessara upplýsinga er aflað með vitneskju foreldra nema sérstakar ástæður þyki til. Ef upplýsingar staðfesta ekki grun er máli lokið. Að öðrum kosti skal barnavernd, í samráði við foreldra, gera skriflega áætlun um meðferð málsins, þar sem tilgreint er hvernig hagsmunir barnsins verði best tryggðir.
Hvað er hægt að gera í barnaverndarmálum
Dæmi um úrræði sem beitt er skv. barnaverndarlögum og lúta að þörfum barna og fjölskyldna eru:
-
Leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns.
Stuðla að því í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir að beitt verði úrræðum skv. öðrum lögum.
-
Útvega barni/fjölskyldu viðeigandi stuðning og meðferð.
-
Tilsjónarmaður – aðstoða foreldra við að sinna uppeldiskyldu sinni.
-
Persónulegur ráðgjafi – ráðgjöf, tómstundir, rjúfa félagslega einangrun.
-
Stuðningsfjölskylda – taka á móti barni til vistunar ákveðna daga í mánuði.
-
Aðstoða foreldra eða þungaða konu við að leita sér meðferðar.
-
Vista barn um skamman tíma utan heimilis á meðferðarstofnun, vistheimili eða fósturheimili.
-
Ráðstafa barni í fóstur.
